Kreisler, léttur og trega blandinn

Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og Árni Heiðar Karlsson píanóleikari leika á tónleikum í Þingeyjarsýslu og á Akureyri helgina 14.-16. nóvember.


Þorgeirskirkja
Skjólbrekka
Galtalækur
Þorgeirskirkja að Ljósavatni
föstudaginn 14. nóvember 2014 kl. 20:30
Skjólbrekka í Mývatnssveit
laugardaginn 15. nóvember 2014 kl. 16:00 (breytt frá kl. 15)
Galtalæk á Akureyri
sunnudaginn. 16. nóvember 2014 kl. 13:00


Aðgangseyrir er 1.500 krónur. Ekki er möguleiki að taka við greiðslum með greiðslukortum.
Efnisskráin samanstendur af dansandi léttum tónverkum fyrir fiðlu og píanó. Flest þeirra eru eftir, eða útsett af, hinum kunna fiðluleikara Fritz Kreisler. Meðal þeirra eru perlurnar Liebesleid og Liebesfreud.

Tónleikarnir verða föstudagskvöldið 14. nóvember klukkan 20:30 í Þorgeirskirkju að Ljósavatni, Skjólbrekku í Mývatnssveit laugardaginn 15. nóvember klukkan 15:00 og í Galtalæk á Akureyri sunnudaginn 16. nóvember klukkan 13:00.

Fritz Kreisler var fæddur í Vín 1875 og er talinn einn af mestu fiðluleikurum sem uppi hafa verið. Hann samdi fjölda tónverka fyrir ýmis hljóðfæri, og umritaði verk annarra tónskálda fyrir fiðlu og píanó og eru þær útsetningar alltaf jafn vinsælar. Eins og margir fiðluleikarar sinnar kynslóðar, skóp hann sinn sérstaka hljóm sem þekkja má í verkum hans. Hann ferðaðist og hélt tónleika víða um Evrópu og Bandaríkin og bjó í Austurríki, Þýskalandi og Frakklandi, en við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar flutti hann til Bandaríkjanna og lést þar 1962.

Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach.
    Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur frumflutt mörg tónverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana og árið 2008 kom út tvöfaldur geisladiskur með leik hennar á þremur sónötum og þremur partítum eftir Johann Sebastian Bach. Veturinn 2012−2013 hélt hún röð sex einleikstónleika í kirkjum Suður-Þingeyjarsýslu til að minnast 150 ára sögu fiðluleiks í sýslunni.

Árni Heiðar Karlsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi síðustu tvo áratugina, sem píanóleikari, meðleikari, tónskáld og hljómsveitarstjóri, í leikhúsum og kvikmyndum. Hann hefur gefið út fjóra geisladiska með eigin tónsmíðum, „Q" (2001), Mæri (2009), Mold (2013) og Hold (2014) sem allir hafa hlotið glimrandi móttökur hérlendis og erlendis.
    Árni Heiðar hóf nám í píanóleik í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, þá lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þaðan sem hann útskrifaðist árið 2000 undir handleiðslu Halldórs Haraldssonar. Framhaldsnám í klassískum píanóleik stundaði hann hjá píanóleikaranum Martino Tirimo í London og við Háskólann í Cincinnati í Bandaríkjunum þaðan sem hann útskrifaðist með Meistaragráðu árið 2004. Samhliða þessu lauk Árni Heiðar burtfararprófi frá djassdeild FÍH 1997 og stundaði framhaldsnám í djasspíanóleik við Listaháskólann í Amsterdam veturinn 1997 - 98 þar sem hann naut leiðsagnar djasspíanistans Rob Madna.

Ábyrgðamaður fréttatilkynningar: Hlíf Sigurjónsdóttir s. 863 6805   www.HlifSigurjons.is