Fréttatilkynning

Föstudagskvöldið 19. ágúst 2016 verður haldin minningardagskrá um Björn Ólafsson konsertmeistara á Halldórsstöðum og Þverá í Laxárdal í tilefni þess að Björn hefði orðið 100 ára í febrúar á næsta ári. Að dagskránni standa Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og Halldór og Hallgrímur Valdimarssynir.


Minningardagskráin hefst klukkan 19:30 í hlöðunni á Halldórsstöðum, með kaffi í boði heimamanna. Þar munu Halldórsstaðabræður og Hlíf segja frá Birni og rifja upp minningar og leiknar verða upptökur af fiðluleik hans. Síðan verður farið í slóð Björns suður í Þverárkirkju þar sem Hlíf leikur meðal annars Sónötu eftir J.S. Bach, eitt af uppáhaldsverkum Björns.
Björn Ólafsson konsertmeistari fæddist 26. febrúar 1917. Hann var meðal fyrstu nemenda Tón­listar­skólans í Reykjavík og einn þeirra fjögurra sem fyrstir voru braut­skráðir úr skólanum vorið 1934. Hann stundaði fram­halds­nám í Vínar­borg og lauk prófi þar vorið 1939 með þeim árangri að hann var strax ráðinn sem fyrsti fiðlu­leik­ari að Vínar­fíl­harmon­í­unni sem þá var undir stjórn Wilhelm Furt­wänglers. Hann kom heim til Íslands sumarið 1939 og ætlað að standa stutt við, en síðari heims­styrjöldin hófst þá um haustið og kom í veg fyrir að hann kæmist aftur til Vínar.
    Björn réðst sem aðal­fiðlukennari við Tón­listarskólann í Reykjavík, varð yfirkennari strengjadeildar skólans og stofnaði hljómsveit Tón­listar­skólans. Þegar Sin­fóníu­hljóm­sveit Íslands var stofnuð árið 1950 varð hann fyrsti konsert­meistari hljóm­sveitar­innar og hélt þeirri stöðu til 1972.
    Árið 1942 kvæntist hann Kolbrúnu Jónas­dóttur og dvöldu þau mörg sumur hjá skyldfólki Kolbrúnar á Halldórsstöðum í Laxárdal og undi Björn sér hvergi betur en þar.
    Björn Ólafsson var í fram­varðar­sveit þeirra einstaklinga sem með þrotlausri vinnu sinni og hugsjónum náðu að auðga menningarlíf vort svo að við urðum á örskömmum tíma samkeppnishæf við aðrar Evrópu­þjóðir. Hann lést í Reykjavík 1984.
Hlíf Hlíf Sigurjóns­dóttir nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsert­meistara við Tón­listar­skólann í Reykjavík og fór til fram­halds­náms við Há­skólana í Indiana og Toronto og Lista­skólann í Banff og síðar nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á náms­árum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistar­mönnum tuttugustu aldarinnar.
    Hlíf hefur haldið fjölda ein­leiks­tónleika og leikið með sin­fóníu­hljóm­sveitum og kammer­sveitum víða um Evrópu, í Banda­ríkjunum og Kanada. Geisladiskar með öllum partítum og sónötum eftir J.S. Bach í flutningi hennar og diskurinn DIALOGUS, með tónverkum sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana, hafa hlotið frá­bæra erlenda dóma.
    Veturinn 2012–13 hélt Hlíf röð sex tón­leika í kirkjum Suður-Þing­eyjar­sýslu til að minnast fiðlu- og tón­menningar í sýsl­unni í hálfa aðra öld.
Hlíf Sigurjóns­dóttir • sími 863−6805 • HlifSigurjons(hjá)HlifSigurjons.is • heimasíða
Halldór Valdimarsson • sími 846−7603 • HalldorVa(hjá)Simnet.is