Fréttatilkynning.

Í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá opnun Listasafns Sigurjóns Ólafssonar býður fjölskylda Sigurjóns til tónleika í safninu á Laugarnesi sunnudaginn 21. október klukkan 20:00. Á efnisskrá eru tónverk sem samin hafa verið við höggmyndir Sigurjóns.

Sigur­jón Ólafs­son
Jónas Tómasson
Gríma     2007
    Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla og
    Þórdís Gerður Jónsdóttir selló
Alexander Liebermann Snót     2018
    Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla
    − frumflutningur
Povl Christian Balslev
Fótboltamenn     2018
    Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla og
    Povl Christian Balslev píanó
    − frumflutningur
      1   Leikurinn hefst
      2   Sendingar
      3   Tæklingar
      4   Spyrnur
      5   Sálmur leikmannsins

Gríma

Snót

Fótboltamenn


Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaup­manna­höfn en ólst upp í Reykja­vík. Hún nam fiðlu­leik hjá Birni Ólafs­syni konsert­meist­ara við Tón­listar­skól­ann í Reykja­vík og fór síðar til fram­halds­náms við Há­skól­ana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á náms­árum sín­um kynntist hún og vann með mörgum merk­ustu tón­listar­mönn­um tuttug­ustu aldarinnar, þar á meðal William Prim­rose, Zolt­an Szek­ely, Gy­örgy Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oist­rach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leik­ið með sin­fóníu­hljómsveitum og kammer­sveit­um víða um Evrópu, í Banda­ríkjun­um og Kanada.
    Haustið 2014 kom geisla­diskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í Banda­ríkjunum með einleiks­verk­um í hennar flutn­ingi, sem samin hafa verið sér­staklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, til­nefndi þann disk „CD of the year 2015“. Síðar endur­útgaf sama útgáfu­fyrirtæki tvöfaldan geisla­disk, frá árinu 2008, þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir einleiks­fiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir diskar hlotið mikið lof gagn­rýn­enda.
    Hlíf er list­rænn stjórn­andi Sumar­tón­leika Lista­safns Sigur­jóns Ólafss­on­ar og hefur tekið þátt í starfi safns­ins frá upphafi.
Þórdís Gerður Jónsdóttir
Að loknu fram­halds­prófi á selló vorið 2011 hóf Þórdís Gerður Jóns­dótt­ir nám við jazz­deild Tón­listar­skóla FÍH og var aðal­við­fangs­efni henn­ar spuni og leið­ir til að finna selló­inu hlut­verk sem leið­andi hljóð­færi í jazz­tón­list. Á burt­farar­prófs­tónleik­um henn­ar vorið 2015 voru ein­göngu flutt hennar eigin tón­smíð­ar og lagði hún á­herslu á að sam­leik­ar­ar hennar - jazz­sveitin - æfði og léki eins og um klass­íska kammer­músík væri að ræða. Þór­dís hóf nám við Lista­háskóla Ís­lands haust­ið 2014 og lauk B. Mus. gráðu í selló­leik 2017 þar sem aðal­kenn­ari henn­ar var Bryn­dís Halla Gylfa­dótt­ir.
    Undan­farin ár hefur Þór­dís spil­að með fjöl­breytt­um tón­listar­hóp­um, svo sem jazz­kvint­ett Sig­urð­ar Flosa­sonar og Hans Olding, Caput hópn­um, Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands, Sinfonia Nord, Umbra En­samble og Elektra En­samble. Í hennar eigin jazz­kvart­ett er það mark­mið­ið að máta sellóið sem jazz­söngv­ara, en sú hug­mynd kvikn­aði út frá þeirri kenn­ingu að selló­ið sé það hljóð­færi sem líkir hvað best eftir manns­rödd­inni. Þórdís lauk upp­tök­um á sinni fyrstu sóló­plötu í maí í ár þar sem hljóð­ritað­ar voru henn­ar eigin tóns­míðar.
Að loknu fram­halds­námi í Am­ster­dam settist Jónas Tómas­son að á Ísa­firði, þar sem hann hefur að mestu dval­ið síðan. Hann hefur látið að sér kveða á ýms­um svið­um tón­listar­lífs­ins, leikið á flautu, kennt flautu­leik og tón­fræði­grein­ar, stjórn­að kór­um og um ára­tuga skeið hefur hann haft um­sjón með tón­leika­haldi fyrir Tón­listar­félag Ísa­fjarð­ar. Tón­smíð­arn­ar hafa þó ævin­lega átt hug hans allan og síð­ustu árin hefur hann helgað sig þeim ein­göngu.
    Jónas er afar mikil­virkt tón­skáld og eftir hann liggur fjöldi verka af ólíkum toga. Hann hefur samið fjöl­mörg hljóm­sveitar­verk og á síð­ustu árum hefur hann m.a. samið átta Sinfóní­ettur þar sem hann kannar hljóð­heim sin­fóníu­hljóms­veitar­innar með mis­mun­andi hljóð­færa­skipan. Eftir hann liggja einnig nokkrir konsertar, m.a. fyrir orgel, víólu, píanó, tvö píanó og sin­fóníu­hljómsveit. Kór­verk, ekki síst kirkju­leg, skipa stóran sess í tón­verka­safni Jónasar, má þar nefna Missa Tibi Laus, Lúkasar- óratóríu, Missa brevis og Söngva til jarð­ar­innar. Þá hefur hann samið fjöld­ann allan af kammer­verk­um fyrir ólíkar og oft frum­legar sam­setning­ar hljóð­færa. Loks hefur Jónas samið fjölda einleiks- og ein­söngs­verka fyrir ýmis hljóð­færi, oft að beiðni ein­stakra flytj­enda. Eftir farsælan feril á Ísafirði er Jónas fluttur, ásamt fjölskyldu sinni, til Garðabæjar.
    Jónas samdi verkið Grímu fyrir Hlíf Sigurjóns­dóttur árið 2007, við sam­nefnt verk föður hennar og var það frum­flutt af Hlíf og Julia MacLaine selló­leikara á sumar­tónleik­um LSÓ í sep­tember 2007.
Alexander

Alexander Liebermann fæddist í Berlín og stund­aði nám í tón­smíð­um og tón­listar­fræðu­m við Hanns Eisler há­skól­ann og lauk BM gráðu í maí 2013. Þaðan lá leið hans vestur um haf og lauk hann meistara­gráðu í tón­smíð­um frá Juilliard tón­listar­háskól­an­um í New York borg undir hand­leiðslu Samuel Adler og Steven Stucky. Nú stundar hann doktors­nám í tón­smíð­um við Man­hattan School of Music, undir hand­leiðslu Reiko Füting. Jafn­framt stundar hann sitt fag og kennir við Juilliard og Man­hattan skól­ana.
    Þótt ungur sé, hefur Alexander unnið til fjölda verð­launa og hlotið fjölmarga styrki og viður­kenn­ingar, t.d. Morton Gould Young verðlaunin 2014 og þýsku GEMA verðlaunin 2013 og sama ár hlaut hann fyrstu verð­laun í Juilliard Orc­hester Com­posi­tion. Tón­list hans hefur verið leikin af þekkt­um hljóm­sveitum beggja vegna Atl­ants­hafsins, í Suður Ameríku og Asíu. Af flytjend­um má nefna fiðlu­leik­ar­ann Gilles Apap, Philippe Bianconi píanó­leikara, the New York Virtuoso Singers, útvarps­blásara­sveitina í Leip­zig, hljóm­sveit Juilliard há­skól­ans með Jeffrey Milarsky, Phil­harmóníu­sveit­ina í Nice með Philippe Auguin, og Stradivari-Soloists sem skipað er hljóðfæraleikur­um úr Berlínar­fíl­harmoníu­hljóm­sveit­inni.
    Alexander samdi Snót fyrir Hlíf Sigurjóns­dótt­ur í haust við sam­nefnt verk föður hennar.
Povl Christian Balslev er fæddur í Fjelsted á Fjóni og er kominn af prestum í marga ætt­liði. Hann nam orgel­leik við Swee­linck tón­listar­­há­skól­ann í Am­ster­dam 1989-90 og lauk Kirkju­tónlistar­prófi frá kon­ung­lega danska Tón­­listar­háskólanum 1996 með orgelleik og stjórnun sem höfuðfög. Síðan hefur hann numið hjá fjölda kennara, m.a. Harald Vogel, David Sanger, Anders Bonde­man, H.O. Ericsson, Jon Laukvik og Lars Ulrik Mortensen (á cemb­alo) og í spuna hjá William Porter í Boston.
    Povl er tón­skáld, píanó- og orgel­leikari. Árið 2003 lauk hann námi í leik á klukkna­spil og hefur síðan leikið á kirkju­klukk­ur víða í Evr­ópu, Banda­ríkj­un­um og Japan. Árið 2002 tók hann við stöðu organ­ista, kantors og klukkna­spils­leik­ara við Vor­frúar­kirkj­una í Svend­borg á Fjóni og einnig kenn­ir hann við kirkju­tón­listar­skól­ann í Løgum­klaustri. Povl hefur mikinn áhuga á kórsöng og kórastarfi og stjórnar tveimur kórum í Svendborg. Hann hefur staðið fyrir tónlistarhátíðum þar, t.d. Vorfrúarhátíðinni, kórahátíðinni SyngSydfyn og fjölþjóðlegu klukknaspilshátíðinni sem haldin er þar sérhvert sumar. Þá er hann ötull flytjandi eigin tónlistar og annarra, leikur á píanó jafnt sem orgel og hefur gefið út fjölda geisladiska. Hann hefur samið tónverk fyrir kóra, orgel, kammersveitir og einnig fyrir leikhús og kvikmyndir. Hann heldur fyrirlestra og hefur ritað greinar og bókarkafla um tónlist og árið 2009 kom út eftir hann ævisaga danska tónskáldsins Th. Aagaard þar sem hann rekur einnig sögu söngtónlistar á Fjóni.
    Povl Christian samdi svítu í 5 þáttum fyrir fiðlu og píanó fyrir Hlíf Sigur­jóns­dótt­ur, við högg­mynd föður hennar Fót­bolta­menn, en sú mynd er nú til sýnis í garð­in­um í Egeskov í Danmörku.
Hlíf Sigurjóns­dóttir • Tel +354−863−6805 • HlifSigurjons(at)HlifSigurjons.is • Heimasíða Hlífar